Báru líkkistu læknisins 40 km

 

Skemmtilegur fróðleikur og saga sem gerðist uppúr aldamótunum 1900.

 

Morgunblaðið miðvikudaginn 9 maí 2007

MARGRA grasa kennir í veglegu riti, 100 ár í heilbrigði, sem kom út í tilefni afmælisárs Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki og dreift hefur verið á öll heimili í Skagafirði. Jón Ormar Ormsson stiklar þar á stóru í sögu sjúkrahúss á Króknum. Jón Þorláksson, landsverkfræðingur, síðar forsætisráðherra og borgarstjóri í Reykjavík, teiknaði sjúkrahúsið við Aðalgötuna sem reist var 1906-1907. Húsið var formlega tekið í notkun 23. febrúar 1907 en samkvæmt sjúkrahússkýrslum var farið að taka á móti sjúklingum í desember 1906. Tíu sjúkrarúm voru í húsinu en 1912 var það stækkað og þá voru þar fjórtán rúm. Stóð svo fram yfir 1920. Margir merkir menn koma við sögu, t.d. nafnarnir Guðmundur Hannesson og Magnússon, héraðslæknar, Sigurður Pálsson og Jónas Kristjánsson, sem gegndu sama embætti. Grípum niður í frásögn Jóns Ormars: „Guðmundur Hannesson héraðslæknir hafði áður komið hreyfingu á sjúkrahúsmálið, eins og hann orðaði það en þegar Sigurður Pálsson tók við sem héraðslæknir, 1898, hófst hann þegar handa að hrinda byggingu sjúkrahússins, í framkvæmd.“ Sigurður þessi var Húnvetningur eins og þeir fyrirrennarar hans. Jón Ormar vitnar í Sögu Sauðárkróks, og segir: „Sigurður læknir naut svo óvenjulegra mannheilla, að slíks munu fá dæmi í Skagafirði. Sjúklingar hans gátu þess, að návist hans til aðgerða hefði orðið þeim mikill þrautaléttir, þó ekki kæma til aðgerða. Hann var hress í anda, þelhlýr, bar með sér sólskin að sjúkrabeði. Hins vegar er í sögnum, að Guðmundur Hannesson og síðar Jónas Kristjánsson hafi bölvað hressilega, tvinnað og þrinnað, er þeir fengust við smærri aðgerðir, sjúklingunum til hugarléttis og gaf góða raun. Virðast því báðar aðferðirnar gagnlegar, aðalatriðið að sýna ekki tilfinningaleysi.“ Jón Ormar greinir frá í riti sínu að Skagfirðingar nutu Sigurðar Pálssonar ekki lengi eftir að sjúkrahúsið var risið. „Haustið 1910 fór Sigurður læknisferð vestur á Skagaströnd að ósk vinar hans Carls Berndsens kaupmanns. Ófús var Sigurðar þessarar farar en vildi ekki neita þessum vini sínum, þótt annar læknir væri nær á Blönduósi. Það lýsir vel samgönguháttum þessa tíma að Sigurður tók strandferðaskipið Vestu, vestur til Skagastrandar, en þegar þangað kom var veðri þannig háttað að skipið hafnaði sig ekki heldur hélt inn til Blönduóss. Verða þessir atburðir ekki raktir frekar hér að öðru en því að þegar hann hugðist fara landveg til Skagastrandar var hann ekki vel til ferðalags búinn eins og rakið er í Sögu Sauðárkróks. Þegar kom að Laxá í Refasveit varð það slys að hann féll af hestinum og drukknaði í ánni. Þegar fréttir bárust af þessu slysi til Skagafjarðar var Skagfirðingum mjög brugðið. En þeir ákváðu að halda vestur Fjöll að sækja lík Sigurðar og gera þá för eftirminnilega og bera líkkistuna á höndum sér austur Kolugafjall og segja heimildir að sú leið sem farin var sé um 40 kílómetrar. Fór Jón Ósmann, ferjumaður á Vesturósi, einn kynlegasti kvistur í skagfirskum sögum seinni tíma fyrir göngumönnum. Höfðu þeir Sigurður átt marga góða stund saman við veiðar, vín og ljóð, á Furðuströndum, byrgi Jóns við Vesturósinn. Þegar fréttist að líkfylgdin væri komin að Gönguskarðsá hélt fjöldi fólks úr Króknum að fylgja lækninum síðasta spölinn utan frá Eyrinni og heim að læknishúsinu. Útförin var gerð frá Sauðárkrókskirkju 31. október. Mikið fjölmenni var við athöfnina og hafa sumir getið þess til að fjölmennari jarðarför hafi ekki verið gerð í Skagafirði á seinni öldum. Theodór Friðriksson rithöfundur var búsettur á Króknum þegar þessi atburður gerðist og í sinni einstöku ævisögu, Í verum, segir hann frá þeim og lýkur frásögn á þessum orðum: „Hef ég aldrei séð fólki meira burgðið en við útför þessa vinsæla læknis. Einkum var það eftirtektarvert, hve margar konur vildu gráta þennan fríða mann úr helju.“

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Partners.blog.is

Sigfús Sigurþórsson.
Sigfús Sigurþórsson.

 

 

Nýjustu myndir

  • ...s8000652
  • ...s7000479
  • ...s7000525
  • ...s7000530
  • ...s7000558
  • ...s7000463
  • ...s6000810
  • ...s7000409
  • ...s7000389
  • ...s7000347

Nýjustu myndböndin

Severum_ad_kissast

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

32 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband