Búið er að skáka Dauðanum útaf taflborði daglegrar tilveru og inná þar til gerðar stofnanir.

Hvað veist þú um dauðann? Getur verið að "dauðinn" hafi breyst?

Á síðustu 100-150 árum gjörbreyttist tilvera íslensku þjóðarinnar. Hún yfirgaf torfbæjamenningu liðinna alda og stökk inní tæknivæddan nútímann á ljótri prjónabrók. Þjóð lagðist til svefns í daunillri, myrkri baðstofu en vaknaði í uppljómuðu raðhúsi á Seltjarnarnesi og týndi fortíð sinni á leiðinni. Hún stóð skyndilega alsköpuð og tæknivædd í morgunsári nýrrar dögunar án tengsla við nóttina eða frumstætt bændasamfélag 19du aldar. Gríska goðafræðin segir að Pallas Aþena hafi stokkið á þennan veg fullsköpuð útúr höfði Seifs með skjöld og sverð. 
 
 Nútímamaðurinn skildi eftir vandamál eins og hungur, farsóttir og einangrun á vegferð sinni og á fullt í fangi með að gera sér veruleika liðinna alda í hugarlund. Í basli liðinna alda hefði allsnægtasamfélag þeirrar 21stu verið sem útilegumannabyggð í yfirbyggðum dal. Landpóstar og jeppamenn nútímans gætu aldrei skilið veruleika hvers annars.
 
 Þetta risastökk inní draumkennda, óvissa framtíð án allra tengsla við sögu, siðprýði, siðleysi og reynslu forfeðranna hefur skilið Íslendinga eftir í tilvistarlegu tómarúmi. Saga annarra þjóða er ekki eins öfgakennd enda fóru þær inní nútímann í áföngum en ekki á öfugu heljarstökki.
 
 Samskipti við Dauðann hafa einnig gjörbreyst á þessu tímaskeiði. Hann er ekki lengur eins og hver annar heimilismaður eða hluti daglegrar tilveru. Hrikalegur ungbarnadauði liðinnar aldar heyrir sögunni til og árvissar, mannskæðar farandpestir eru hættar að leggja leið sína um landið. Veruleiki Dauðans hefur flust útaf heimilum og tilveru venjulegs fólks og inná sjúkrahús og elliheimili. Hann hefur helgað sér eldri kynslóðina en lætur venjulega aðra í friði enda kemur í ljós þegar dánarauglýsingar Moggans eru skoðaðar að flestir sem deyja eru nokkuð við aldur. Sem betur fer heyrir til undantekninga að börn eða ungmenni deyi á tímum nútímasamfélagshátta og lækninga.
 
 Þjóð og ríkisstjórn hafa gert um það þegjandi samkomulag við Dauðann að sjúkrahús og elliheimili séu eðlilegur starfsvettvangur hans en ekki leikvellir lífsins, heimili, vinnustaðir, samgöngutæki, skólar eða dansstaðir. Dauðinn hefur haldið samkomulagið að mestu leyti. Stöku sinnum gleymir hann sér og sveiflar ljánum úti í samfélaginu, en venjulega heldur hann sér innan fyrirfram ákveðinna marka og lætur ekki sjá sig á götum úti. Dauðinn í veruleika daglegs lífs er eins og tímavilltur jólasveinn í fullum skrúða um hásumar.
 
 Dauðinn er alls staðar fjarlægur nema í fjölmiðlum. Þegar batnandi heilsufar og breyttir samfélagshættir ýttu honum útúr raunverulegri tilveru fólks fékk hann sér vinnu í afþreyingariðnaðinum. Í öllum fréttum, spennuþáttum og mörgum skemmtidagskrám gegnir Dauðinn mikilvægu hlutverki sem er eins og dauft bergmál af Dauðaþrá miðalda. Þrátt fyrir þrúgandi nærveru sína er hann svo óraunverulegur að enginn tekur mark á honum. Hann er eins og farandpredikari í texta eftir Gylfa Ægisson. Fólk horfir áhugalaust yfir kvöldmatnum á fréttir um stórfengleg flugslys, náttúruhamfarir, mannfrek styrjaldarátök eða skyndidauða frægra einstaklinga. Að loknum auglýsingum er glápt á spennumynd þar sem menn eru skotnir og stungnir til bana á hundrað mismunandi vegu. Dagblöð og vikurit birta stöðugt átakanlegar myndir af brostnum augum dáinna eða biðjandi ásýn þeirra deyjandi. Fjöldagrafir opnast á síðum blaða þar sem limlest lík karla, kvenna og barna liggja í himinhrópandi umkomuleysi og prentsvertu.
 
En þessi ósköp hreyfa við fæstum. Innst inni eru allir sér þess fullvissir að ekkert þessu líkt komi fyrir þá. Líkur á því að deyja í flugslysi eða fyrir morðingjahendi eru mun minni en vinningslíkur í lottói. Enginn bíleigandi gerir nokkru sinni ráð fyrir því að glæsibíllinn hans muni breytast í líkkistu utan um hann sjálfan. Fæstir búast við því að lenda í snjóflóði eða eldgosi eða hitta blóðþyrsta vígamenn á förnum vegi.
 
Búið er að skáka Dauðanum útaf taflborði daglegrar tilveru og inná þar til gerðar stofnanir.
 
Sé þetta borið saman við nálægð Dauðans á liðnum öldum, verða umskiptin ótrúleg. Þegar flett er gömlum kirkjubókum kemur í ljós að Dauðinn var sjálfsagður sambýlingur í tilverunni og gerði sig heimakominn eins og köttur á baðstofufleti. Árið 1850 voru skráð liðlega 20 dauðsföll í kirkjubók Útskálakirkju á Suðurnesjum, þar af dóu 13 börn undir fimm ára aldri. Þetta fólk gaf upp öndina heima hjá sér að þeim undanskildum sem drukknuðu í sjó eða urðu úti. Menn lágu banaleguna og skildu við í fleti sínu í baðstofunni innan um annað heimilisfólk.
 
 Þegar síðustu andvörpin höfðu verið tekin veitti einhver á heimilinu hinum látna nábjargir, oftast húsbóndi eða húsfreyja. Ljósmæður voru fengnar til að aðstoða heimilisfólk við þvott og frágang á líkinu eða aðrar konur sem ekki voru líkhræddar. Karlmennirnir á heimilinu sáu um að hefja líkið úr rúminu á fleka eða kistu ef hún var til. Líkið var svo klætt í lín eða nærföt og sokka og stóð uppi í nokkra daga í kaldri skemmu, framhýsi eða úthýsi eftir aðstæðum hverju sinni.
 
 Á meðan lík stóð uppi í heimahúsi var ílát með líkvatni haft undir kistunni til að koma í veg fyrir nálykt. Skipt var um vatn daglega og skyldi því hellt fjarri bænum, þar sem menn trúðu að það drægi í sig „óholla dampa“ eða uppgufun frá líkinu. Víða á Norðurlöndum höfðu menn tröllatrú á lækningamætti líkvatns og auk þess á því vatni sem notað hafði verið til að þvo lík. Heimilisfólkið signdi náinn kvölds og morgna og oftast vakti einhver yfir líkinu á nóttum. Ljós var haft hjá hinum látna þegar myrkt var. Börnum var kennt að umgangast Dauðann af tilhlýðilegri virðingu eins og hvern annan virðulegan heimilisgest. Í þessu viðamikla leikriti gegndu líkin þýðingamiklum hlutverkum sínum af stakri prýði.
 
 Þegar einhver hafði látist á 18du og 19du öld var venjulega haldin svokölluð nábrenna sem líka var kallað að „brenna nágrasið“. Heydýna úr fleti hins látna var tekin og brennd ásamt fatnaði, bókum og öðru dóti úr fórum hins dána. Allt sem á bálið fór varð að brenna til ösku, annars var hætta á reimleikum. Það var talið ills viti þegar reyk af af brennunni lagði yfir bæjarhúsin. Sennilega hefur stór hluti af skáldskap íslenskra utangarðsskálda farið með dótinu þeirra á þetta bál enda segir að mikið hafi verið brennt af leirburði í nábrennum.
 
 Allir þessir lokaþættir í ævisögu hvers heimilismanns, banalega, dauðastríð, síðustu andvörpin, kistulagning og jarðarför fóru fram fyrir opnum tjöldum að viðstöddu heimilisfólki, gestum og nágrönnum. Dauðinn kom og fór að eigin geðþótta, ófeiminn og hnarreistur og skeytti engu um áhorfendur eða meðleikara í lokaþætti lífsins. Eftirlifandi heimilismenn voru þátttakendur í dauðastríði og andláti hvort heldur þeim líkaði betur eða verr.
 
 Í samanburði við þennan veruleika Dauðans á liðnum öldum er nútímadauðinn nánast kominn í felur. Hvar sem hann drepur niður fæti eru læknar, útfararstjórar og líksnyrtar önnum kafnir við að moka í slóðina svo að hún sjáist ekki. Flestir deyja inni á lokaðri sjúkradeild innan um ókunnuga hjúkrunarfræðinga og lækna eða ættingja. Kveðjustund, kistulagning og jarðarför fara fram á sérstökum stofnunum. Lík standa ekki lengur uppi í heimahúsum heldur í líkhúsum við hentugt kuldastig. Þegar aðstandendur sjá hinn látna í kistunni hefur starfsfólk útfararstofnunar farið svo vel um hann höndum að því er líkast að hann hafi fengið sér smáblund í dagsins önn. Engum dettur í hug að nota líkvatn sér til heilsubótar og nábrennur með munum úr eigu hins látna eru ekki haldnar lengur. Skáldskapur utangarðsskálda tilheyrir jólabókaflóðinu. Einu tengsl mikils hluta þjóðarinnar við raunverulegan „ekki-fjölmiðla“ Dauða eru minningagreinar, dánarauglýsingar og slysafréttir dagblaða.
 
 Einhver sjónvarpsandstæðingur reiknaði það út að venjulegt íslenskt sjónvarpsbarn hefði um fermingu séð margfalt fleiri dauðsföll en hermenn á átakasvæðum heimsstyrjaldarinnar síðari. Öll börn hafa séð óteljandi sjónvarpslík bæði leikin og raunveruleg í fréttum og kvikmyndum. Tölvuleikir gefa barninu enn frekari tækifæri til að komast í snertingu við Dauðann með því að drepa grúa af missaklausum tölvuverum með tölvugikk. En nálægð þykjustudauðans gerir hann enn framandlegri. Hægt er að slökkva á tölvuleik, byrja uppá nýtt og hinir dauðu rísa upp. Fréttamyndir af líkum á hörmungarsvæðum náttúruhamfara eða styrjalda líða hjá á skjánum eins og draumur, hverfa og víkja fyrir skemmtiefni.
 
 Stór hluti nútímafólks hefur aldrei séð lík nema á sjónvarpsskjá.
 
 En þrátt fyrir meinta fjarveru Dauðans hefur hann aldrei vakið jafn mikinn áhuga. Upp eru komin sérstök Dauðafræði sem fjalla um veruleika og tjáningarform Dauðans. Þessi fræði eru á erlendum málum kennd við sjálfan Thanatos, persónugerving Dauðans í grískri goðafræði, og kölluð thanatológía. Mikill fjöldi bóka kemur út á hverju ári um fyrirbærið og fræðimenn hittast á stórum ráðstefnum til að varpa ljósi inní skuggalendur Dauðans. Við marga háskóla eru haldin regluleg námskeið þar sem veruleiki og aðferðarfræði Dauðans er krufin til mergjar. Dauðinn fer hamförum á internetinu þar sem ótrúlegur fjöldi slóða leiða lysthafendur inn í ríki hans.
 
 Margir vonast til þess að raunvísindin muni afhjúpa um síðir, „mysterium mortis.“ Leyndardómar Dauðans eru í hugum margra óþolandi á tímum stórfenglegra tækniframfara. Maðurinn kannar í sífellu æ stærri svið eigin tilvistar. Mannslíkaminn er eiginlega fullkannaður og vísindin hafa þrengt sér inní minnstu frumur og afhjúpað leyndarmál þeirra. Geimfarar hafa stigið fæti á tunglið og náð myndum af yfirborði Marz. Skip á hafsbotni fá engan frið í gröf sinni fyrir alsjáandi augum dvergkafbáta. Ríki Dauðans hlýtur að vera næsta takmark landkönnuða vísindanna. 
 
En nútímamaðurinn veit eiginlega jafn lítið um sjálfan Dauðann og allir forverar hans því að hann gætir enn vel og vandlega landamæra sinna. og þríhöfða hundurinn Kerberus sér til þess að enginn fái að snúa þaðan aftur til lifanda lífs. En þrátt fyrir þessa óvissu tjá dauðafræðingar sig um Dauðann og skrá staðarlýsingar og leiðbeiningar fyrir væntanlega ferðalanga. Það sætir engum undrum að maðurinn tapi áttum í þeim hafsjó kenninga og hugmynda sem umlykja Dauðann. Þrátt fyrir trú á Guð og/eða vísindi, óttast flestir Dauðann og flýja inn í eril daglegs lífs til að komast undan endanleik sjálfs síns. Allar tilgátur um líf eftir Dauðann hafa ekki breytt þessu að neinu marki, hann hrífur og hræðir, heillar, ógnar og vekur aðdáun sem aldrei fyrr. En fyrir flesta er þó þessi áhugi tengdur Dauða allra hinna. Það er auðvelt að ímynda sér heiminn án eiginlega allra annarra en einmitt manns sjálfs. En fyrr eða síðar verður hver manneskja að horfast í augu við „omnis homo moriturus“ endi eigin tilvistar, hvort sem henni líkar það betur eða verr.
 
 Dauðinn er eitthvert merkilegasta viðfangsefni allra hugsandi manna. Birtingarform hans eru óteljandi; hann er óumflýjanlegur og dularfullur eins og fjarlægur ættingi sem allir þekkja af afspurn en engan langar til að kynnast nánar.
 
 Í bók minni Listin að lifa, listin að deyja, reyndi ég að gera dauðanum skil sem heimspekilegu, sögulegu, trúarlegu og læknisfræðilegu fyrirbæri. Þegar ég kynnti bókina víða um land kom mér á óvart hversu margir það voru sem höfðu fyrst og fremst áhuga á dauðanum útfrá sjónarhorni andatrúar og endurfunda. Þessi afstaða er um margt ólík skoðunum grannþjóðanna þar sem umræðan er opnari og umfansgmeiri.
 
 Endalausar minningagreinar Morgunblaðsins bera þessari tilhneigingu gott vitni. Flestar greinarnar fjalla um dauðann sem einhvers konar breytingu á tilverustigi þar sem allir muni á endanum finnast aftur. Menn heita líkinu að hittast síðar í góðu tómi og ræða um allt það sem gleymdist að gera skil í dagsins önn. Þessar greinar bera vitni um barnalega þrá eftir óumbreytanleika og eilífri æsku handan við landamæri lífs og dauða.
 
 Dauðinn hefur vikið um set í nútímaþjóðfélagi, en fjarlægðin gerir hann ekki skiljanlegri eða ásættanlegri, heldur dularfyllri og leyndardómsfyllri. Fólk áttar sig ekki á endanleika hans sem gerir allt daður við dauðann algengara og eðlilegra. Fólk hótar með sjálfsvígi af minnsta tilefni án þess að gera sér grein fyrir þeim leiðarlokum sem dauðinn er.
 
 Stundum er sagt að Dauðinn sé skelfilegasta og fyrsta vísindalega uppgötvun mannsins. Eigin dauðlegleiki var eins og lost sem knúði manninn inn í heim heimspeki, dulvísinda, trúarbragða og lista. Með því að viðurkenna eigin dauðleika minnkaði þörf og áhugi mannsins að flýja Dauðann og afneita honum. Maðurinn fór að skapa eða eyðileggja til að gefa lífi sínu tilgang. Framtíðin á eftir að leiða í ljós hvaða áhrif fjarvera Dauðans úr venjulegu lífi á eftir að hafa á listir, trúarbrögð og heimspeki komandi áratuga. Missir maðurinn hluta af sköpunarkrafti sínum þegar Dauðinn er ekki eins nálægur og áður og þörfin til að skapa ekki eins brýn?
 
 Næstu áratugir munu leiða í ljós hvaða áhrif meint fjarvera dauðans kemur til með að hafa á allt samfélagið.

Þessi grein er eftir Óttar Guðmundsson lækni og finnst mér hann engum líkur, finnst mér þessi skrif vera hrein og bein snilld.

ATH: Myndum eru bætt inn í mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Já margar eru nú útskíringarnar á því hvað tekur við, en ekki það að ég sé í neinum vafa.

En burt séð frá því, þá er reglulega skemtilega skrifað hjá Dr. Óttari Guðmundssyni.

Sigfús Sigurþórsson., 2.6.2007 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Partners.blog.is

Sigfús Sigurþórsson.
Sigfús Sigurþórsson.

 

 

Nýjustu myndir

  • ...s8000652
  • ...s7000479
  • ...s7000525
  • ...s7000530
  • ...s7000558
  • ...s7000463
  • ...s6000810
  • ...s7000409
  • ...s7000389
  • ...s7000347

Nýjustu myndböndin

Severum_ad_kissast

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 159092

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

219 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband