Samkvæmt henni eykur Sjálfstæðisflokkurinn fylgi sitt verulega og mælist nú með 43,4 prósent. Vikmörk reiknast 4,4 prósentustig og því er hægt að segja með 95 prósenta vissu að fylgi flokksins sé nú á bilinu 39,0 til 47,8 prósent. Ef þetta yrðu niðurstöður kosninga fengi flokkurinn 29 þingmenn kjörna. Mest eykst fylgið meðal kvenna og á höfuðborgarsvæðinu, um tíu prósentustig, en alls eykst fylgið um 7,3 prósentustig frá síðustu könnun blaðsins þegar 36,1 prósent þeirra sem afstöðu tóku sagðist myndu kjósa flokkinn.
Frjálslyndi flokkurinn eykur einnig fylgi sitt milli kannana og segjast nú 5,8 prósent myndu kjósa flokkinn. Fengi flokkurinn samkvæmt því þrjá þingmenn kjörna. Í síðustu könnun blaðsins sögðust 4,4 prósent myndu kjósa flokkinn. Mest eykst fylgi flokksins á landsbygginni, um 3,8 prósentustig. Vikmörk við fylgi Frjálslynda flokksins er 2,1 prósentustig og er fylgið þá á bilinu 3,7 til 7,9 prósent.
Þriðji flokkurinn sem eykur fylgi sitt á milli kannana er Samfylkingin, sem líkt og Sjálfstæðisflokkur heldur landsfund sinn nú um helgina. Áhrif landsfundar virðast þó minni á Samfylkingu en Sjálfstæðisflokk og eykst fylgi flokksins um rúm prósentustig á milli kannana. Nú segjast 22,3 prósent þeirra sem afstöðu tóku myndu kjósa Samfylkingu og fengi flokkurinn samkvæmt því fimmtán þingmenn kjörna. Í síðustu könnun blaðsins hafði hann 21,0 prósenta fylgi. Samkvæmt þessari könnun er Samfylking aftur orðin næststærsti flokkurinn. Mest eykst fylgið á landsbyggðinni, um 4,1 prósentustig. Vikmörk við fylgi Samfylkingar eru 3,7 prósentustig og fylgið því á bilinu 18,6 til 26,0 prósent.
Hvorugt tveggja nýrra framboða myndi ná manni á þing, ef skoðanakönnunin yrði niðurstaða kosninga. Baráttusamtök eldri borgara og öryrkja mælast einungis með 0,8 prósenta fylgi með vikmörk upp á 0,8 prósentustig. Allt fylgið mælist á höfuðborgarsvæðinu.
Íslandshreyfingin er nú komin niður fyrir fimm prósenta markið og fengi því engan jöfnunarmann. 2,3 prósent segjast nú myndu kjósa hreyfinguna en í síðustu könnun blaðsins sögðust 5,0 prósent myndu kjósa hana Mest missir hreyfingin fylgi meðal karlmanna, 3,8 prósentustig. Vikmörk reiknast 1,3 prósentustig.
Fylgi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs dalar verulega frá síðustu könnun blaðsins en það fer úr 23,3 prósentum í 16,7 prósent. Fylgið dregst því saman um rúman fjórðung. Samkvæmt þessu fengi flokkurinn ellefu þingmenn kjörna, í stað sextán í síðustu könnun blaðsins. Mest minnkar fylgið meðal kvenna, um tíu prósentustig. Þá dregst fylgi flokksins saman um tæp átta prósentustig á landsbyggðinni. Vikmörk fylgis Vinstri grænna eru 3,3 prósentustig og er fylgið því á bilinu 13,4 til 20,0 prósent.
Fylgi Framsóknarflokksins dalar lítillega frá síðustu könnun. Nú segjast 8,6 prósent myndu kjósa Framsóknarflokkinn, en í síðustu könnun blaðsins voru það 9,4 prósent. Samkvæmt því myndi flokkurinn fá fimm þingmenn kjörna. Vikmörk reiknast 2,5 prósentustig, sem þýðir að fylgið er á bilinu 6,1 til 11,1 prósent.
Þingmeirihluti núverandi stjórnar heldur því, samkvæmt þessari könnun. Samanlagt hafa stjórnarflokkarnir 52,0 prósenta fylgi og fengju 34 þingmenn kjörna. Stjórnarandstöðuflokkarnir og ný framboð fengju 48,0 prósent atkvæða og 29 þingmenn
Hringt var í 800 manns á kosningaaldri laugardaginn 14. apríl og skiptust kjósendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga nú? 59,9 prósent aðspurðra tóku afstöðu en 31,3 prósent voru óákveðin. 6,6 prósent svöruðu ekki spurningunni og 2,3 prósent sögðust ætla að skila auðu eða ekki ætla að kjósa. svanborg
@frettabladid.is